Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Framhaldsskólanemendur 
setja upp söngleikinn Grease
Fimmtudagur 17. mars 2022 kl. 07:05

Framhaldsskólanemendur 
setja upp söngleikinn Grease

Leikfélag Keflavíkur er um þessar mundir að æfa söngleikinn Grease í samstarfi við leikfélag NFS, Vox Arena. Æfingar á söngleiknum hófust í janúar en byrjuðu af fullum krafti um miðjan febrúar þegar sýningum lauk á Fyrsta kossinum. 

Leikhópurinn samanstendur af átján krökkum á framhaldsskólaaldri sem hafa mismikla reynslu í leiklist, söng og dansi en öll eru þau að standa sig stórkostlega vel. Það reyndist listrænum stjórnendum mjög erfitt að velja í hlutverk en u.þ.b. 30 einstaklingar mættu í prufur. Auk leikara er sex manna hljómsveit á sviðinu sem sér um þau fjölmörgu og líflegu tónlistaratriði sýningarinnar. Tónlistarstjóri er Sigurður Smári Hansson sem hefur verið virkur meðlimur Leikfélags Keflavíkur í mörg ár og er jafnframt formaður þess.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Danshöfundur sýningarinnar er Sigríður Rut Ragnarsdóttir Ísfeld og er þetta frumraun hennar sem danshöfundur. Leikstjórn er í höndum Brynju Ýrar Júlíusdóttur en þetta er í annað skipti sem hún leikstýrir sýningu hjá Vox Arena en hún leikstýrði einnig Burlesque árið 2018 sem er jafnframt síðasta sýning sem Vox Arena setti upp.

Það veitir Leikfélagi Keflavíkur mikla gleði að geta hjálpað nemendafélagi Fjölbrautaskóla Suðurnesja að byrja aftur með leiklistarstarf fyrir nemendur skólans og fleiri nemendur á framhaldsskólaaldri en í sýningunni eru nemendur úr ýmsum framhaldsskólum. Við hvetjum bæjarbúa að sjálfsögðu til að mæta á sýninguna og styðja við öflugt menningarstarf hjá leikfélögum bæjarins. 

Söngleikurinn verður frumsýndur föstudaginn 18. mars og miðasala fer fram á tix.is.